laugardagur, 2. ágúst 2008

Langisjór - Hólaskjól - ferðasaga



Lundabaggar lögðu leið sína í Hólaskjól föstudaginn 25.júlí 2008. Það rigndi og blés á þá sem komu í lok dagsins. Fólk kom sér fyrir í skálanum og meiri hluti þeirra sem ætluðu sér að vera í tjaldi, voru mjög fegnir að það var nóg pláss í skálanum.

Laugardagurinn rann upp. Við vöknuðum klukkan 7.00 og hópurinn var tilbúinn til brottfarar kl. 8.30. Við biðum eftir björgunarsveitarmönnum sem þurftu að útvega sér nýjan bíl í stað þess sem bilaði. Allt fór vel og lagt var af stað frá Hólaskjóli upp úr klukkan 9.00. Ferðinni var heitið að Langasjó.....



Veðrið var hið fínasta og við vorum á þriðja tuginn og með 5 báta í eftirdragi. Við komum að Langasjó, þar voru bátarnir settir á flot og allir röðuðu sér í bátana. Við sigldum af stað, byrjuðum á að sigla inn í litla vík og héldum síðan á sjóinn langa.


Eftir siglingu í tvo tíma lögðum við bátunum í lítilli vík og gengum upp á tindinn sem blasti við.






Tindurinn tilheyrir Fögrufjöllum en við nefndum hann Þórutind þar sem tvær Þórur og ein Þórhildur ásamt Leifa og Áslaugu voru fyrst að klífa hann. Kristófer tók gps punktinn á þennan tind þ.a. við getum fundið hann aftur.


Hópurinn lagði af stað burtu úr víkinni og sigldi í norðurenda Langasjóss. Þar var hringsólað um stund og sumir lögðu af stað til baka enda hafði ferðin tekið fjóra tíma. Aðrir héldu í land á norðurströndindina og skoðuðu sig um. Á bakaleiðinni lentu þrír bátar á grynningum og skemmdu skrúfuna sína. Á leiðinni norður Langasjó geispaði einn utanborðsmótorinn golunni og var sá bátur dreginn það sem eftir var ferðar. Ferðinni lauk með göngu á Sveinstind og meira að segja fór Helga sem fótbrotnaði í mars alla leið upp. Sumir komust ekki upp þar sem þeir voru lofthræddir eða þeir voru að dólast í bátunum vel fram yfir klukkan sex og urðu því að koma sér beint í matinn í Hólaskjóli.



Þegar komið var í Hólaskjól var farið beint í að moka grillholu og voru 7 lambalæri og rúmlega 50 kartöflur grillaðar og bornar fram 2 tímum síðar ásamt girnilegu salati og "tillbehör" (og smjöri). Allir urðu saddir, enginn kvartaði alla vegana. Hópurinn var stór þ.a. bæði var borðað úti og inni. Belgarnir sem gistu með okkur í skálanum þessa nótt borðuðu sitt pasta á meðan að lambalærin ilmuðu..... :)


Í eftirmat var boðið upp á grillaða bananana að hætti Svanfríðar og Kristófers. Svo fóru allir í háttinn....

Sunnudagur rann upp. Hvar var sólin? Nú var kominn úði og lágskýjað. Þórhildur og Leifi voru þau einu sem höfðu gengið í Álftavötn áður og voru skipuð fararstjórar með það sama, þökk sé þeim. Við lögðum af stað kl. 10.30 og stefndum að Silfurfossi og fórum sem leið lá eftir Syðri Ófæru inn í Ófærugljúfur. Þar tók við vað sem tvístraði hópnum. Sumir sneru til baka en 21 óð yfir vaðið og hélt inn í Álftavatnaskálann. Þar fengu allir sér te :). Þeas nestið sitt. Þegar pásunni var lokið og komið var út úr skálanum var skollin á svört þoka. Þótt ferðinni hafi verið heitið í Álftavatnakrók var ákveðið miðað við aðstæður að snúa við. Fara til baka veginn og fara yfir Syðru Ófæru á náttúrulegri steinbrú. Gengið var af stað eftir slóða og komum við að vegi sem við töldum að lægi frá skálanum. Tekið skal fram að við sáum mjög lítið, eiginlega ekki neitt. Þrátt fyrir gps tæki og áttavita tókum við vinstri beygju í stað hægri beygju. Áður en við vissum af vorum við komin langleiðina í Álftavatnakrók en þar mættum við bíl sem við stoppuðum. Bílstjórinn tjáði okkur að steinbrúin sem við leituðum að væri í hinni áttinni....

Við snerum við og fundum steinbrúna sem er náttúrulega náttúruleg brú yfir Syðri Ófæru. Mjög sérstök náttúrusmíði og þar gengum við þurrum fótum yfir ána. Þrátt fyrir þoku og rigningu komumst við öll til baka og vorum misþreytt og skiluðum við okkur öll að lokum í Hólaskjól, sumir voru meira að segja sóttir síðasta spölinn.

"Ég vildi ég sæi strolluna, koma í heita súpuna" sungum við og þrátt fyrir nokkra kuldapolla í súpunni hitnaði hún að lokum og allir fengu heita og mjög góða súpu að hætti kokka Svanfríðar og Kristófers. Ákveðið var að næsta Þorrablót yrði haldið á Panorama á nýja hótelinu, Arnarhvoli við Ingólfsstræti.

Mánudagurinn rann upp. Það var ekki sól, það var ekki rigning, það var svört þoka.... Þrátt fyrir að Landmannalaugar væru á dagskránni fóru flestir beint í suður. Ferðinni var lokið og þökkum við Áslaugu og Þórarni kærlega fyrir skipulagið og góða ferð. Lundabaggar fá einnig þakkir fyrir samveruna og allir fá rós.....

Rós í blóma


Næsta ferð.......


2009 - ARNARFJÖRÐUR........ Gaman gaman, allir saman..... Ragnheiður, Þóra og fleiri sem þær munu kalla til, ætla að koma með ferðaplan fyrir Arnarfjörðinn.



LUNDABAGGAR LEGGJA í LANGFERÐ vorið 2009...........


Jibbý, við ætlum til Færeyja. Jón Atli og Stefán ætla að leggja drög að ferðaáætluninni. Þar sem við höfum nú ferðast saman í 18 sumur og njótum hverrar ferðar betur og betur, ákváðum við að nú væri tími til að bæta við vorferð. Í lok maí, kanski í kringum uppstigningardag eða í kringum hvítasunnuna, leggjum við í langferð. Eða í kringum 17. júní?



Upplýsingar um fyrsta skipulag munu liggja fyrir á Þorrablótinu og að sjálfsögðu á heimasíðu Lundabagga þegar þær liggja fyrir

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.